Þetta kemur fram í tilkynningu frá eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands. Þar segir að hraði landriss virðist ekki hafa breyst en um sé að ræða breytingu í láréttum hreyfingum.
„Lítil skjálftavirkni hefur þó verið í dag samanborið við gærdaginn. Óljóst er hvað þetta nákvæmlega þýðir að svo stöddu og má búast við að sérfræðingar skoði nú gögnin og setji í samhengi við gervitunglamyndir af svæðinu,“ segir enn fremur.
Mælingar síritandi GPS-mæla uppfærast þrisvar á sólarhring er hægt að nálgast upplýsingar úr þeim hér.
Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að taka þurfi einstökum atburðum með fyrirvara.
„Við erum búin að vera að sjá landris við Þorbjörn út af kvikuinnskoti og það heldur bara áfram þetta landris sem við erum að mæla á mælum, bæði GPS-mælum og myndum frá gervihnöttum. Það verður alltaf að taka svona stökum punktum með smá fyrirvara. Á þessu grafi eru punktar sem hoppa mjög hátt út úr meginlínunni, það geta alltaf verið truflanir – loftshjúptruflanir sem dæmi. Að taka einn punkt út úr mælingunni og segja að það sé greinilega aukinn hraði set ég smá varnagla við, við reynum að fylgjast með því hvernig staðan er almennt,“ segir Salóme. GPS mælar séu vaktaðir allan sólarhringinn og að vel verði fylgst með framvindu.
