Frá þessu greinir á Facebook-síðu Landspítalans. Segir þar að Anna hafi hlaupið fyrir gjörgæsluna vegna þess að í mars síðastliðnum hafi Árni bróðir hennar lent í alvarlegu slysi og legið á gjörgæslu í átta vikur. Þar af hafi honum verið haldið sofandi í sjö þeirra.
„Anna vildi með þessu þakka fyrir umhyggju og velvild sem hún segir að starfsfólk deildarinnar hafi sýnt bróður sínum. Anna, Árni bróðir hennar og Aðalheiður eiginkona hans, komu í heimsókn á deildina nýlega. Þar hittu þau starfsfólk deildarinnar og afhentu söfnunarféð sem verður nýtt til að efla tækjakost,“ segir í færslunni.
Anna safnaði fjórðu hæstu upphæðinni af hlaupurum í Reykjavíkurmaraþoninu en markmið hennar voru þrjú hundruð þúsund krónur. Markmiðinu var sannarlega náð og margfalt það en samtals söfnuðust 1.422.000 króna.
„Gjörgæslan á Hringbraut þakkar kærlega fyrir gjöfina og velvild í hennar garð.“