Langflestir hafa jarðskjálftarnir verið um miðbik kvikugangsins við Sundhnúk eða á um 3 til 5 kílómetra dýpi. Skjálftavirknin hefur haldist stöðug frá því á laugardag. Í stöðuuppfærslu á vef Veðurstofunnar segir að megináhersla sé á vöktun virkninnar við kvikuganginn og í Grindavík.
Þá segir einnig að aflögunarmælingar sýni áframhaldandi aflögun á svæðinu. Þær séu í samræmi við að kvika flæði enn inn í ganginn. Hluti kvikugangs virðist vera að storkna, einkum til jaðra en ekki við uppstreymissvæði kviku sem talið er vera við Sundhnúk.
Þá sé staðan á heildina óbreytt frá því í gær. Líkur á eldgosi séu enn taldar miklar. Komi til goss er líklegust staðsetning við kvikuganginn.
Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði segir sigdalinn í Grindavík halda áfram að dýpka.
„Við vitum það frá athugunum á staðnum að sigið heldur áfram og það eru líka láréttar hreyfingar eftir sniðgengjum þannig að hvort tveggja er í gangi. Skjálftavirkni virðist vera svipuð eins og hún hefur verið og meðan það er þá verðum við bara að bíða og sjá hvernig framhaldið er. Kvikan sem virðist vera komin upp á tiltölulega grunnt dýpi það er eitthvað sem heldur aftur af henni þannig að meðan hún er að eiga við það þá svo sem fáum við ekki gos.“
Kvikan sé komin á fjögur eða fimm hundruð metra dýpi undir og við Grindavík
„Ein möguleg túlkun er að það sé kvika eftir endilangri Sundhnúkasprungunni sem er fimmtán kílómetra löng og hvar toppurinn er á kvikunni á hverjum stað er erfitt að segja til um. Það virðist nú vera að þarna við Grindavík hafi kvikan náð tiltölulega grunnt.“
