Körfubolti

„Við ætlum að halda á­fram og við ætlum að klára þetta“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Þór Ólafsson ræðir við sína menn í Smáranum í dag.
Jóhann Þór Ólafsson ræðir við sína menn í Smáranum í dag. Vísir/Hulda Margrét

Jóhann Þór Ólafsson var þakklátur eftir sigur Grindavíkur gegn Hamri í Subway-deildinni í dag. Hann sagði Grindavíkurliðið ætla að halda áfram af fullum krafti.

„Ég verð að viðurkenna að þetta var svolítið skrýtið. Hvað körfuboltann varðar þá fannst mér við eiginlega aldrei ná takti. Það er geggjað að vera hérna með öllu þessu fólki og fá að gefa samfélaginu svona stund þar sem við gleymum stað og stund. Að njóta þess saman sem okkur finnst gaman. Það er ómetanlegt,“ sagði Jóhann Þór í viðtali strax eftir leik.

Hann viðurkenndi að á meðan á leiknum stóð hafi hann ekki endilega mikið verið að spá í spilamennsku sinna manna.

„Ég var ekkert endilega að fylgjast með hvernig við vorum að framkvæma hlutina. Maður var einhvern veginn bara í móki. Aftur, þakklæti og fyrir alla sem hafa tekið utan um okkur. Ekki bara körfuboltaliðið heldur samfélagið í kringum okkur.“

Hann kom síðan aftur inn á aðstoðina sem Grindvíkingar hafa fengið og sagði að hans menn hefðu þurft að passa sig að koma sér niður á jörðina fyrir leik.

„Það er ótrúlegt og gaman að horfa á þetta. Hvernig okkur er tekið og hvernig er allir eru tilbúnir að aðstoða okkur. Við þurftum að passa okkur að fara ekki of hátt og koma okkur niður á jörðina. Við ætlum að halda áfram og við ætlum að klára þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×