Í skjáviðtali frá Bandaríkjunum í gær var Haraldur spurður hvað búast mætti við stórum eldgosum á Reykjanesskaga. Hann tók þá sem dæmi gos sem varð í Eldvörpum vestan Grindavíkur á miðöldum á árabilinu 1210 til 1240. Það hafi verið mjög stórt. Þá hafi hraun runnið út í sjó til suðurs vestan Grindavíkur og kvikugangurinn sennilega gengið út í sjó.

Haraldur sagði að menn þyrftu að vera vakandi fyrir því svæði. Þar sé eitt af stærri hraunum á Reykjanesskaga. Þar mætti búast við stóru gosi, það svæði væri á flekamótunum og mjög hættulegt.
Hann tók jafnframt fram að Keflavíkurflugvöllur stæði hins vegar á svæði sem væri utan við jarðskorpuhreyfingarnar. Flugvöllurinn væri því sennilega ekki í hættu á að verða fyrir hraunrennsli.
Spurður um hvort eldgos í sjó gæti lokað Keflavíkurflugvelli, jafnvel í nokkrar vikur, svaraði Haraldur:

„Vissulega. Það gæti orðið svona Surtseyjargos undan Reykjanesi, rétt hjá Reykjanestá. Það gæti orðið Surtseyjargos sem verður mikil öskumyndun frá vegna þess að það verður sprengigos þegar sjór og kvika kemur saman. Þá verður svona sprengigos og dreifir ösku yfir og veldur því að flugið er lokað og lokar þá Keflavíkurflugvelli.“
Hér má sjá þriggja mínútna viðtalskafla þar sem Haraldur ræðir um Eldvörp og Keflavíkurflugvöll:
Viðtalið við Harald í heild má sjá hér: