Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stjórnvöld hafa átt í miklum viðræðum við bankana undanfarna daga til að samræma aðgerðir fyrir íbúa Grindavíkur.
„Við áttum fund með þeim í gær í ráðherranefnd um efnahagsmál. Ég held að það skipti miklu að þau hafa nú lýst því yfir að þau felli niður vexti og verðbætur í þrjá mánuði. Það dregur vonandi úr áhyggjum Grindvíkinga sem eiga við mikla óvissu að stríða. Þannig að ég held að þetta sé mjög jákvætt skref,“ segir Katrín.

Hún og ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á að bankarnir væru hluti af heildarlausn í þessu verkefni. Ríkisstjórnin hafi notað þessa viku til að skoða húsnæðismálin og hvernig hægt væri að styðja Grindvíkinga í þeim efnum.
„Það er auðvitað áfram mikil óvissa um veturinn fyrir Grindvíkinga. Þótt þeim sé nú hleypt inn á svæðið í dag og það teljist hafa lítillega dregið úr hættu á svæðinu á eldgosi,“ segir forsætisráðherra. Unnið væri að því að finna Grindvíkingum húsnæði til næstu mánaða.

„Sem er auðvitað risaverkefni á þessum tímum. Þannig að ég vænti þess að við verðum að ræða þau mál á ríkisstjórnarfundi á morgun.“
Heldur þú að það verði einhver niðurstaða á þeim fundi?
„Ég auðvitað vonast til þess. Við erum að reyna að vinna þetta mjög hratt, eins hratt og hægt er. Þannig að það sé einhver vissa fram undan næstu mánuði fyrir Grindvíkinga,“ segir Katrín Jakobsdóttir.