Náttúruhamfarartryggingu Íslands hafa borist ríflega hundrað og fimmtíu tilkynningar um tjón á húsum og innbúum í Grindavík. Matsmenn hafa verið í bænum síðustu daga og verða áfram út vikuna til að meta tjón.
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfarartryggingar Íslands, segir að eftir daginn í dag verði búið að skoða um sextíu fasteignir.
„Við höfum fyrst og fremst núna verið að einbeita okkur að þessari svokallaðri stóru sprungu eða sigdal sem liggur í gengum allan bæinn og við höfum fyrst og fremst svona myndina af því hversu mörg hús þar í kring eru með altjón. Okkur sýnist að það gæti alveg verið á fleiri stöðum í bænum sem að við höfum ekki komist í að skoða enn þá en þetta eru væntanlega einhvers staðar í kringum tuttugu hús að minnsta kosti sem við erum að horfa á að þetta gæti átt við.“
Um fimm þúsund tilkynningar bárust um tjón í Suðurlandsskjálftanum en Hulda segir að tjónið nú sé minna.
„Ég held að við getum alveg sagt að þetta er stærsti atburður sem að hefur orðið síðan 2008 þegar jarðskjálftinn varð á Suðurlandi og það varð mikið tjón þá bæði á Selfossi og Hveragerði og nærsveitum þar. Þannig að þetta er stærsta tjón síðan þá.“