Hussein er 29 ára gamall og er frá Írak. Hann hefur búið á Íslandi síðustu þrjú árin. Hann, og fjölskylda hans, hafa fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd hérna en hafa kært niðurstöðuna til íslenskra dómstóla. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að á meðan þau bíða niðurstöðu þar megi ekki vísa Hussein úr landi en það megi vísa fjölskyldu hans þangað, og því fara þau til Grikklands á laugardag.
„Mér líður eins og ég sé í martröð og ég veit ekki hvað verður um mig í framtíðinni. Ég hef orðið fyrir svo miklum vonbrigðum,“ segir Hussein aðspurður hvernig honum líði.
Hann er í hjólastól og þarf aðstoð með flest dagleg verk. Þroskahjálp og ÖBÍ hafa bæði fordæmt aðskilnað hans frá fjölskyldu hans í vikunni og segja það ómannúðlegt. Fjölskylda hans óttast mjög hvað verði um hann þegar hann fer en hann hefur enn engin svör fengið frá Útlendingastofnun eða félagsþjónustunni um það hvað taki við þegar fjölskylda hans fer á laugardag.
„Mamma fékk í dag tölvupóst frá Útlendingastofnun þar sem henni var sagt að hafa samband við félagsþjónustuna. Þau ætluðu að hjálpa syni hennar og séu með plan fyrir hann. Við hringdum í félagsráðgjafann sem sagðist ekki hafa heyrt af neinu plani og að Útlendingastofnun hefði ekki látið þau vita af því.“
Hussein segir ástand sitt hafa versnað mikið frá því hann kom til landsins, Hann óttast hvað tekur við eftir að fjölskylda hans fer.
„Fjölskyldan hjálpar mér með allt frá þeim sem þegar ég vakna. Þau hjálpa mér í og úr hjólastólnum, að borða og elda. Þau hjálpa mér með allt,“ segir Hussein og að tilhugsunin um að vera einn eftir á Íslandi sé hrikaleg. Hann hafi aldrei verið einn og vilji alls ekki vera án fjölskyldu sinnar.

Hann segir sína helstu ósk að geta lifað eðlilegu lífi á Íslandi og vonar að yfirvöld endurskoði ákvörðun sína.
„Ég vona að íslensk yfirvöld skoði mál mitt út frá mannréttindum. Ég get ekki lifað án fjölskyldu minnar og ég get ekki farið til Grikklands því ég mun deyja ef ég hef ekki aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Ég vona að ég og fjölskylda mín munum geta búið hér saman. Við eigum marga vini og ég get ekki ímyndað mér lífið án þeirra.“