„Ég hef ekkert heyrt í henni. Ég hef heyrt af henni. Hún sást á flugvellinum í Kaupmannahöfn á leiðinni í tengiflug. Ég veit að hún ber sig vel og það hjálpar okkur að halda áfram í þessari baráttu,“ segir Ragnheiður Arnardóttir, systir Eddu Bjarkar.
Þið vitið ekkert hvar hún er stödd akkúrat núna?
„Við gerum ráð fyrir því að hún sé mætt til Noregs. Auðvitað vissum við að þetta myndi gerast og þetta gerðist dálítið hratt. Það sem við vildum var að þessi úrskurður Landsréttar kæmi, hann kemur auðvitað á sama tíma eða rétt eftir að þeir sækja hana. Alla vega fékk málið að klára sinn gang hérna heima,“ segir Ragnheiður og vísar til þess að Landsréttur var ekki búinn að taka afstöðu til úrskurðar héraðsdóms um að verða við framsalsbeiðni norskra stjórnvalda þegar Edda var sótt í fangelsið á Hólmsheiði.
Rétturinn staðfesti þó úrskurðinn áður en Edda var færð úr landi.
Edda er komin með lögmann úti í Noregi, sem fjölskyldan hefur verið í sambandi við.
„Við heyrðum frá honum í morgun og vissum þa að hann var ekki búinn að heyra frá henni. Hann er tilbúinn um leið og hann fær að vita af henni og hann er byrjaður að vinna í málinu.“
Veit úr hverju systir sín er gerð
Ragnheiður segir óvissu um hvar Edda er stödd, og um framhaldið, vera erfiða.
„En ég þekki systur mína og veit úr hverju hún er gerð. Ef einhver getur þolað þetta þá er það hún. Hún mun gera sitt besta til þess að halda áfram. Hún treystir á okkur, fólkið hennar, til að halda hennar slag áfram. Það gerum við, það kemur maður í manns stað.“
Norsk yfirvöld hafi brugðist í málinu.
„Þannig okkar slagur veðrur líka sá að norsk yfirvöld fái að finna fyrir því að maður getur ekki gert svona við móður sem hefur aldrei gert neitt af sér og börn sem hafa aldrei gert neitt til að eiga þessa meðferð skilið.“
Ekki hafi verið hlustað á ákall drengjanna þriggja sem forræðisdeilan hverfist um, sem vilji búa á Íslandi með móður sinni.
„Á það var ekki hlustað. Það var reynt að þvinga [þá] til að gera eitthvað sem [þeir] vildu ekki gera og við getum ekki sætt okkur við það.“
Drengirnir eru enn hér á Íslandi, en það er faðir þeirra einnig. Lögmaður hans hefur sagt mikilvægt að drengirnir finnist sem fyrst, og að fólk sem er með þá í sinni umsjón gerist brotlegt við hegningarlög og geti því átt von á kæru.