Skoðun

Sjúkraþyrla, tíminn skiptir máli

Gunnar Svanur Einarsson skrifar

Í þessari grein vil ég árétta minn hug og styðja við það að við Íslendingar fáum sjúkraþyrlu (HEIMS) eigi síðar en strax.

Ég hef áður skrifað grein um sjúkraþyrluna og útskýrði þar muninn á sjúkraþyrlum (HEIMS) og björgunarþyrlum (SAR). Þar fór ég inn á að björgunarþyrla (SAR) myndi aldrei henta, t.d. við flutning á sjúklingum milli sjúkrahúsa sem myndi hins vegar ganga upp með notkun sjúkraþyrlu (HEIMS).

Ég ætla ekki að ræða frekar hve undarlega það blasir við að Landhelgisgæslan reyni að leggja stein í götu þessa verkefnis. Þ.e.a.s. að Heilbrigðisráðuneytið komi sér upp sjúkraþyrlu til að styðja við fjarspítalaþjónustu. Inn á það fór ég í grein minni Sjúkraþyrla eða björgunarþyrla. Hver er munurinn? Ég ætla hins vegar að koma stuttlega inn á hvað svona sjúkraþyrla myndi þýða fyrir okkur í viðbragðstíma.

Að mínu mati væri skynsamlegast að sjúkraþyrlan fyrir Suðurland væri staðsett á Hvolsvelli. Þaðan gæti hún flogið lágt í slæmu skyggni um Suðurlandið og gæti síðan komið í blindflugi til Vestmannaeyja.

Vindhviður geta verið vandamál fyrir gangsetningu þyrla og því tel ég Hvolsvöll heppilegri kost hvað það varðar. Sjúkraþyrlan getur hins vegar lent í Vestmannaeyjum í talsverðum vindi, svo lengi sem ekki þarf að drepa á.

Hér eru nokkur dæmi um biðina sem einstaklingar (kannski þú) þyrftir að bíða á mismunandi stöðum á Suðurlandi ef veikindi eða slys bæri að höndum. Ég set upp áætlaðan flugtíma frá því þyrlan er komin í gang. Viðbragðstími á að vera 5 - 10 mín frá útkalli. Þá miða ég við sjúkraþyrluna Airbus H145, sem hefur flughraða um 135 hnúta (250 km/h) en hún getur flogið hraðar á fullu afli. Aðrar tegundir sjúkraþyrla hafa svipaðan flughraða.

Hvolsvöllur – Vestmannaeyjar: 8 mínútur

Hvolsvöllur – Gullfoss­: 16 mín

Hvolsvöllur – Landmannalaugar: 16 mínútur

Hvolsvöllur – Flúðir: 11 mínútur

Hvolsvöllur – Borgarnes: 25 mínútur

Hvolsvöllur – Þorlákshöfn: 12 mínútur

Hvolsvöllur – Vík: 17 mínútur

Hvolsvöllur – Kirkjubæjarklaustur: 26 mínútur

Hvolsvöllur – Skaftafell: 40 mínútur

Á þessu má sjá að þyrlan er fljót á staðinn og ekki síst þá er flutningur á sjúkrahúsin einnig mjög hraður.

Höfundur er þyrluflugmaður og véltæknifræðingur.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×