Þetta kemur fram í Facebook-færslu Rannsóknareiningar í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóli Íslands.
Þar segir að á skjálftasvæðinu sé „eitt mikilvægasta þverbrotabelti í Norður-Atlantshafi, Bight-þverbrotabeltið“.

Sprungukerfi á myndinni að ofan sýni gliðnunarstefnu flekamóta Norður-Ameríkuflekans og Evr-Asíuflekans.
Þá segir í færslunni að á kortinu megi sjá að flestir skjálftarnir séu sunnan Bight-þverbrotabeltisins, „en að mestu bundnir við flekamótin er marka gliðnun milli flekanna tveggja.“ Telji maður skjálftana eru þeir alls 29 sem hafa mælst á svæðinu undanfarna þrjá sólarhringa.
Hér sé því hugsanlega um sambærilegan atburð að ræða eins og gengur nú yfir á Reykjanesi segir í færslunni.
Skjálftarnir bundnir við afmarkað svæði
Jarðfræðiathugunarstofnun Bandaríkjanna (USGS) hefur einnig mælt skjálftavirkni á svæðinu en samkvæmt þeirra gögnum hafa þrettán stórir skjálftar mælst á afmörkuðu svæði á hryggnum undanfarinn sólarhring.
Flestir skjálftanna hafa verið í kringum 5 að stærð, þeir stærstu 5,2 að stærð en sá minnsti af stærðinni 4,6. Vegna fjarlægðar við jarðskjálftamæla hafa einhverjir skjálftar vafalaust ekki mælst.

Svæðið rannsakað síðast fyrir tíu árum
Í færslu Rannsóknareiningarinnar kemur einnig fram að svæðið hafi verið mælt árið 2013 í rannsóknarverkefni studdu af Vísindasjóði Bandaríkjanna (NSF) undir stjórn Dr. Fernando Martinez við Háskólann í Hawaii og Ármanns Höskuldssonar við HÍ.
Nú liggi fyrir rannsóknartillaga hjá NSF, undir stjórn Prófessors Jaqueline E. Dixon við University of South Florida um að fara aftur inn á svæðið til að safna sýnum með kafbát.
Verði af þeirri tillögu gæti sú sýnasöfnun farið fram 2024 eða 2025.