Fótbolti

Van de Beek lánaður til Eintracht Frankfurt

Siggeir Ævarsson skrifar
Donny van de Beek var á láni hjá Everton árið 2022.
Donny van de Beek var á láni hjá Everton árið 2022. Vísir/EPA

Donny Van de Beek, leikmaður Manchester United, mun ganga til liðs við Eintracht Frankfurt í Þýskalandi á lánssamningi út keppnistímabilið.

Van de Beek hefur gengið illa að festa sig í sessi hjá Manchester United síðan hann gekk til liðs við félagið árið 2020 og aðeins leikið 35 deildarleiki á fjórum árum. Einhverjir reiknuðu með að breytingin yrði á með tilkomu Erik ten Hag, sem þjálfaði van de Beek hjá Ajax en sú varð ekki raunin.

Á þessu tímabili hefur hann komið við sögu í tveimur leikjum í öllum keppnum hjá liðinu og virðist ekki vera inni í myndinni hjá ten Hag, þrátt fyrir að mikil forföll séu í röðum Manchester United þessa dagana.

Lánssamningurinn við Eintracht Frankfurt gildir eins og áður sagði út tímabilið og ef vel gengur býðst félaginu að kaupa van de Beek á 15 milljónir evra ef þeim svo sýnist.

Eintracht Frankfurt er sem stendur í 7. sæti þýsku Búndeslígunnar eftir 14 umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×