Fótbolti

Liverpool fór illa með Manchester United í stórslagnum

Siggeir Ævarsson skrifar
Leikmenn Liverpool fagna marki Taylor Hinds sem reyndist sigurmarkið í leiknum
Leikmenn Liverpool fagna marki Taylor Hinds sem reyndist sigurmarkið í leiknum Vísir/Getty

Liverpool og Manchester United mætast tvisvar í dag í tveimur stórleikjum í ensku úrvalsdeildum karla og kvenna. Liverpool fór vel af stað með sigri 1-2 sigri á í Manchester.

United byrjaði leikinn af krafti og landsliðskonan Elle Toone kom heimakonum yfir strax á 3. mínútu þegar hún afgreiddi lausan bolta í teignum af yfirvegun. Hún bauð svo upp á fagn af dýrari gerðinni í kjölfarið.

Leikmenn United náðu svo að koma boltanum aftur í netið, en að vísu í sitt eigið. Á 32. mínútu varð Millie Turner fyrir því óláni að skora sjálfsmark og allt jafn í hálfleik, 1-1. Boltinn virtist fara af hendi Emmu Koivisto í aðdragandanum en þar sem VAR er ekki til staðar í kvennaboltanum fékk markið að standa án athugasemda.

Það var svo fyrirliði Liverpool, Taylor Hinds, sem tryggði Liverpool öll stigin í dag með marki á 68. mínútu eftir hornspyrnu. Varnarleikur United ekki til útflutnings en Hinds getur verið sátt með sitt fyrsta mark síðan í febrúar 2022.

Þetta var fyrsti sigur Liverpool á United í sögu deildarinnar. United missir af mikilvægum stigum í toppbaráttunni en liðin eru nú jöfn að stigum í 4. og 5. sæti, bæði með 18 stig, fjórum stigum á eftir Arsenal og City sem sitja í 2. og 3. sæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×