Þriðji verkfallsdagur flugumferðarstjóra sem sinna aðflugi að Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli hófst klukkan fjögur síðast liðna nótt og stóð til klukkan tíu í morgun. Íslensku flugfélögin höfðu gert ráðstafanir og seinkað bæði komum flugvéla frá norður Ameríku og brottförum til Evrópu. Aðgerðirnar hafa engu að síður töluverð áhrif á þúsundir farþega og á rekstur flugfélaganna.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra vonar að samningsaðilar geri sér grein fyrir að ábyrgð þeirra væri mikil.
Kemur til greina að kalla þing saman fyrir jól til að leggja fram frumvarp um málið?
„Það er vissulega margt til hérna í ráðuneytinu. Því miður er það svo að það eru bæði til frumvörp og lög frá gamalli tíð um aðgerðir flugumferðarstjóra. Við erum hins vegar ekki að semja nein lög. Við ætlumst hreinlega til að þessir aðilar setjist núna niður og klári þetta við þessar aðstæður. Láti þessu linna sem við höfum verið að horfa upp á núna í þrjú skipti,“ segir Sigurður Ingi.
Ljóst er að innanríkisráðherra ætlar ekki að leggja fram frumvarp á deiluna í dag en flugumferðarstjórar hafa boðað sams konar aðgerðir á miðvikudag, fjórum dögum fyrir aðfangadag. Enginn samningafundur hefur aftur á móti verið boðaður í dag.
Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir tjónið af þessum aðgerðum mikið, fyrir flugfélögin, ferðaþjónustuna í heild sinni og auðvitað farþegana. Ekki væri hægt að ganga að kröfum flugumferðarstjóra óbreyttum.
Sigurður Ingi segist stjórnvöld fylgjast náið með stöðunni. Auðvitað hafi flugumferðarstjórar rétt á að sækja kjarabætur meðal annars með því að nýta verkfallsréttinn. En við núverandi aðstæður ætti að nýta hann sparlega, ekki hvað síst í ljósi þess að verið væri að ræða um heildarsamninga á almenna vinnumarkaðnum til langs tíma.

„Við verðum held ég að ætlast til þess að þessir aðilar axli þá ábyrgð sem þeir hafa. Sem er að semja um kaup og kjör. En við hjá stjórnvöldum verðum vissulega að fylgjast með og sjá hvernig það hefur áhrif á samfélagið allt. - Hver er tímaramminn, hvað er djúp á þolinmæði stjórnvalda? - Ég veit það ekki. En við erum alla vega á viðkvæmum tíma og það held ég að sé öllum ljóst,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.
Flugumferðarstjórar hafa ekki boðað frekari aðgerðir umfram þær sem fara að óbreyttu fram næsta miðvikudag.