Eldfjalla-og náttúruváhópur Suðurlands tilkynnti fyrst um skjálftahrinuna. Í tilkynningunni segir að tugir skjálfta hafi mælst síðan klukkan 21:00 í kvöld. Sá stærsti var 2,4 af stærð. Eins og fram hefur komið hefur skjálftavirkni verið lítil á svæðinu undanfarna daga eftir þá hrikalegu virkni sem var á svæðinu í nóvember.
Virknin nú virðist vera bundin við kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember, sama dag og Grindavíkurbær var rýmdur. Flestir skjálftarnir eru með upptök austur og norðaustur af Sýlingarfelli, að því er segir í tilkynningunni.
Eins og áður segir eru nokkrar vikur síðan álíka hrina sást síðast á svæðinu. Vel er fylgst með þróun mála af sérfræðingum.

Skjálftar sem mælast vel í Grindavík
Einar Hjörleifsson, náttúruvásérfræðingur Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að verið sé að meta atburðarásina. Enn sé of snemmt að segja til um hvað sé um að vera, meðal annars hvort um sé að ræða svipaða atburðarrás og varð þann 10. nóvember, föstudaginn sem Grindavíkurbær var rýmdur.
„Við verðum aðeins að sjá hvað þetta þýðir. Við erum að reyna að átta okkur á stöðunni eins og er. Það er allavega búið að bæta verulega í virkni. Þetta eru skjálftar sem finnast vel í Grindavík.“
Er þetta óvænt atburðarás?
„Við erum með hættumatskort sem er stöðugt endurmetið. Það hefur verið að mælast áfram landris, þannig að orsök þessarar skjálftavirkni eru þessar landbreytingar á Reykjanesskaga. Nú verðum við að fylgjast með hvað gerist.“
Svipar atburðarásin til atburðarásarinnar þann 10. nóvember?
„Það er of snemmt að segja til um það á þessu stigi málsins.“
Fréttin hefur verið uppfærð.