Fyrir ári síðan var tekið upp nýtt verklag á bráðamóttökunni. Nú eru sérstaklega skráðar allar komur vegna heimilisofbeldis. Frá þeim tíma hafa verið skráðar 130 komur.
„Þessar breytingar eru að þannig að það er ákveðið verklag sem fer í gang þegar þolandi mætir á bráðamóttökuna. Það er tekið betur utan um hann. Við fylgjum honum í hverju einasta skrefi. Frá því þeir koma og líka eftir að þeir fara út,“ segir Jóhanna Erla Guðjónsdóttir félagsráðgjafi sem vinnur ásamt tveimur öðrum félagsráðgjöfum í sérstöku heimilisofbeldisteymi á bráðamóttöku Landspítalans. Auk þeirra eru í teyminu sálfræðingur, læknir og hjúkrunarfræðingur.
Auk þess að breyta verklagi við komu og bæta skráningu, var samstarf við lögreglu einnig auðveldað en í maí á þessu ári var samþykkt frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um heilbrigðisstarfsmenn.
Hafa aldrei samband við lögreglu nema með samþykki
Með lagabreytingunni voru skýrðar heimildir heilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi í samráði við þolanda sem leitar á heilbrigðisstofnun. Tilgreint er hvaða upplýsingum er heimilt að miðla til lögreglu þannig að henni sé kleift að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja þolanda nauðsynlega vernd og stuðning.
„Ég hef aldrei samband við lögregluna nema með samþykki sjúklinga. En breytingin er að við erum ekki að brjóta nein lög með því að gera það,“ segir Jóhanna Erla og að nánast allir sem hafi leitað til þeirra hafi viljað samstarf við lögreglu.

„Ég get talið á fingrum annarrar handar þau tilfelli þar sem samvinnu við lögreglu er ekki óskað. Það eru nánast allir sem hafa samþykkt það að við eigum samráð við lögregluna. Burtséð frá því hvort þau leggja fram kæru eða ekki. Það er ekki það sem þetta snýst um. Það snýst um að lögreglan sé upplýst um að viðkomandi hafi komið vegna heimilisofbeldis. Þá er þetta á skrá.“
Þróa verkefnið áfram
„Það er komin ákveðin skráning þannig við getum haldið utan um tölurnar,“ segir hún og að í skráningunni sé haldið utan um aldur þolenda og gerenda, hvenær fólk kemur og hversu oft og hvert þau fara eftir að þau komi til þeirra. Þá segir hún bráðamóttökuna í góðu samstarfi við ýmsa aðila eins og Kvennaathvarfið, Bjarkarhlíð og ýmis sértæk úrræði fyrir minnihlutahópa eins og Konukot og Réttindagæslufulltrúa fatlaðra.
Jóhanna segir verkefnið í áframhaldandi þróun.
„Það sem við erum kannski að skoða eru minnihlutahóparnir, jaðarhóparnir. Heimilislausar konur í vímuefnavanda og málefni fatlaðra. Þetta eru allt jaðarhópar og minnihlutahópar sem eru útsettir fyrir ofbeldi. Þannig þetta getur verið snúið en við erum að reyna.“