Töluverð hætta er metin á snjóflóðum á Norðanverðum Vestfjörðum í dag. Á vef Veðurstofunnar segir að á morgun, aðfangadag, sé spáð norðanstormi og hríðarveðri og búast megi við miklum skafrenningi.
„Lítill snjór var fyrir og er lausamjöllin sem nú þekur fjöll með fyrstu snjóum víðast hvar. Lítið er um eldri fannir undir nýsnævinu. Búast má við að vindflekar byggist upp í suðlægum viðhorfum um helgina,“ segir í ofanflóðaspá. Þá er talin mikil hætta talin á að snjóflóð falli á svæðinu á morgun.
Varðskipin Freyja til taks um helgina
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að áhöfnin á varðskipinu Freyju hafi verið kölluð út að beiðni lögreglunnar á Vestfjörðum í gær vegna slæmrar veðurspár og hugsanlegrar snjóflóðahættu um helgina. Skipið hélt úr höfn á Siglufirði um miðnætti og ætti að vera komið á áfangastað nú undir morgun.

Átján manna áhöfn er um borð sem brást skjótt við kallinu. Miðað við veðurspá eru allar líkur á að skipið verði til taks á Vestfjörðum fram yfir helgi, af því er fram kemur í tilkynningunni.