Sport

Littler búinn að á­kveða hvernig hann ætlar að eyða verðlaunafénu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Littler ræðir við fjölmiðla eftir sigurinn á Matt Campbell í 32 manna úrslitum á HM í pílukasti.
Luke Littler ræðir við fjölmiðla eftir sigurinn á Matt Campbell í 32 manna úrslitum á HM í pílukasti. getty/Steven Paston

Hinn sextán ára Luke Littler hefur slegið í gegn á HM í pílukasti og er þegar búinn að vinna sér inn dágóða upphæð í verðlaunafé. Hann er búinn að ákveða hvernig hann ætlar að eyða því.

Littler tryggði sér sæti í sextán manna úrslitum á HM með sigri á Matt Campbell í gær, 4-1. Aldrei hefur jafn ungur keppandi komist jafn langt á HM í pílukasti.

Í sextán manna úrslitunum mætir Littler annað hvort Jim Williams eða heimsmeistaranum fyrrverandi, Raymond van Barneveld. Sá síðarnefndi hefur mikið álit á Littler og segir að hann geti farið alla leið á HM og unnið mótið.

Littler er ekki bara kominn í sextán manna úrslit heldur er hann öruggur með að minnsta kosti 35 þúsund pund í verðlaunafé. Það gerir rúmar sex milljónir íslenskra króna sem er dágóður slatti, hvað þá fyrir sextán ára barn.

Littler er þegar búinn að ákveða hvernig hann ætlar að eyða verðlaunafénu, sama hversu langt hann kemst á HM.

„Allir vinir mínir eru að horfa á heima. Ég hef alltaf sagt að við þurfum að fara til Blackpool eða Alton Towers svo ég held þeir búist við því að ég borgi ferðina þangað sem ég geri,“ sagði Littler eftir sigurinn á Campbell í gær.

Ef Littler kemst í átta manna úrslit fær hann fimmtíu þúsund pund (8,7 milljónir króna), hundrað þúsund (17,4 milljónir króna) fyrir að komast í undanúrslit, tvö hundruð þúsund (34,8 milljónir króna) fyrir silfrið og fimm hundruð þúsund (86,9 milljónir króna) fyrir að vinna HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×