Innlent

Fá ekki að leigja eitt frægasta brauð­baksturs­­svæði landsins

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, segir hugmyndina ekki hafa þótt framkvæmanlega.
Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, segir hugmyndina ekki hafa þótt framkvæmanlega.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur hafnað erindi heilsulindarinnar Laugarvatn Fontana um gerð leigusamnings um hverasvæðið við Laugarvatn. Sveitarstjóri segir hugmyndina ekki hafa þótt framkvæmanlega.

Erindi heilsulindarinnar var borið upp á síðasta fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar fyrir jól, þann 21. desember. Félagið lýsti yfir vilja til viðræðna við sveitarstjórnina um gerð leigusamnings milli Bláskógabyggðar og félagsins um hverasvæðið svo auka megi upplifun gesta, trygggja öryggi þeirra og stuðla að verndun svæðisins.

Löng hefð er fyrir brauðbakstri á hverasvæðinu. Grafið er í sandinn niður á sjóðandi vatn, pottur með brauðdeigi settur niður og mokað yfir. Brauðið svo gjarnan bakað í hverahitanum í sólarhring.

Meðal þeirra sem þetta hafa gert er Hollywood stjarnan Zac Efron. Hann gerði hverasvæðinu skil í sjónvarpsþáttum sínum árið 2018. Í erindi sínu til Bláskógabyggðar árétta stjórnendur Laugarvatn Fontana að hverasvæðið yrði enn sem fyrr til notkunar fyrir íbúa sem nýti hverasvæðið til baksturs.

Ekki um að ræða stórt svæði

Ekki hefur náðst í stjórnendur heilsulindarinnar vegna málsins. Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, segir í samtali við Vísi að hverasvæðið sé inni á landi sveitarfélagsins.

„Sveitarstjórn sá sér ekki fært um að gera samning um einkaafnot af þessu. Þetta er inni á landi sveitarfélagsins, er ekki afgirt og það geta allir farið þarna um. Þannig að það þótti erfitt að útfæra þetta þannig að þetta væri framkvæmanlegt,“ segir Ásta.

„Það geta allir bakað þarna í dag, svo lengi sem plássið leyfir. Þetta er náttúrulega ekki stórt svæði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×