Fótbolti

Rifti samningnum eftir að­eins fimm deildarleiki

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Eric Bailly lék aðeins fimm deildarleiki fyrir Besiktas.
Eric Bailly lék aðeins fimm deildarleiki fyrir Besiktas. Vísir/Getty

Eric Bailly, fyrrverandi leikmaður Manchester United, hefur fengið samningi sínum rift við tyrkneska félagið Besiktas. Hann hafði verið hjá félaginu í um fjóra mánuði.

Bailly, sem er 29 ára gamall miðvörður, gekk í raðir Besiktas í sumar eftir sjö ára dvöl hjá Manchester United. Hann lék aðeins fimm deildarleiki fyrir Besiktas.

Alls lék hann átta leiki fyrir tyrkneska félagið áður en hann var tekinn úr leikmannahópi félagsins í nóvember á þessu ári. Þann 5. desember síðastliðinn til­kynnti fé­lagið að Bailly myndi hvorki æfa né spila með liðinu eft­ir at­vik sem átti sér stað í leik liðsins við Al­anya­spor.

Varnarmaðurinn reifst þá við samherja sinn inni á vellinum, en einnig gengu sögur um það að hann hafi rifist mikið við samherja sína á æfingasvæðinu.

Bailly hefur þó ekki verið lengi að finna sér nýtt félag eftir að hafa rift samningi sínum. Líklegast þykir að hann muni snúa aftur til spænska félagsins Villarreal þar sem hann lék tímabilið 2014-2015 áður en hann gekk í raðir Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×