Enski boltinn

Sér­fræðingarnir saka Liverpool manninn um leikara­skap

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diogo Jota féll í gasið eftir að hafa fengið snertingu frá Martin Dubravka.
Diogo Jota féll í gasið eftir að hafa fengið snertingu frá Martin Dubravka. Getty/Andrew Powell

Diogo Jota fiskaði vítaspyrnu á mikilvægum tímapunkti undir lok leiks Liverpool og Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi og margir sérfræðingar sökuðu hann í kjölfarið um leikaraskap.

Jota lét sig falla eftir að hafa fundið snertingu frá markverði Newcastle. Dómarinn dæmdi víti og myndbandadómararnir staðfestu þann dóm. Það er enginn vafi um að það var snerting en sérfræðingar í ensku sjónvarpi voru ekki hrifnir af því hversu auðveldlega Portúgalinn lét sig falla.

„Vildi frekar láta sig falla og fá víti í staðinn fyrir að renna boltanum í opið mark. Nú hef ég séð allt,“ skrifaði Ian Wright á samfélagsmiðilinn sem áður hét Twitter en er nú X.

Alan Shearer var líka allt annað en sáttur en hann er náttúrulega harður Newcastle maður.

„Þetta er þvílík dýfa,“ skrifaði Shearer á X-ið. Hann deildi síðan færslu Wright og sagði að þetta væri vandræðalegt.

„Hvernig er þetta vítaspyrna? Þetta er sjokkerandi leikaraskapur. Það versta við þetta allt saman er að Varsjáin staðfesti dóminn,“ sagði John Terry.

Liverpool var með algjöra yfirburði í leiknum en gekk illa að skora. Mohamed Salah skoraði úr vítaspyrnunni og gulltryggði sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×