Nadal mætti Dominic Thiem á Brisbane International mótinu í dag og vann öruggan sigur, 7-5 og 6-1. Þetta var hans fyrsti leikur í einliðaleik í 349 daga.
Spánverjinn nýtir nú Brisbane International mótið til að undirbúa sig fyrir Opna ástralsa risamótið sem hefst sunnudaginn 14. janúar næstkomandi, en Nadal, sem hefur unnið 22 risatitla á ferlinum, hefur gefið í skyn að þetta verði hans síðasta tímabil á vægast sagt farsælum ferli.
„Þetta er búinn að vera tilfinningaþrunginn og mikilvægur dagur fyrir mig eftir eitt af mínum erfiðustu árum á tennisfelinum,“ sagði hinn 37 ára gamli Nadal eftir sigurinn.
„Ég fékk tækifæri til að snúa aftur eftir ár frá keppni, spila fyrir framan magnaða áhorfendur og spila á mjög háu stigi á fyrsta degi. Liðið mitt og fjölskyldan mín sem hafa staðið við bakið á mér á hverjum einasta degi undanfarið ár er eitthvað sem gerir mig stoltan.“
Með sigrinum tryggði Nadal sér sæti í 16-manna úrslitum Brisbane International mótsins þar sem hann mætir Ástralanum Jason Kubler á fimmtudaginn.