Brian Friend á CrossFit vefnum B.Friendly Fitness er þessa dagana að gera upp þann tíma sem heimsleikarnir hafa farið fram í Wisconsin fylki. Heimsleikarnir fóru í síðasta skiptið fram í Madison síðasta haust en næstu leikar verða haldnir í Fort Worth í Texas fylki.
Björgvin Karl Guðmundsson var í fjórða sæti á karlalistanum og Ísland á tvær öflugar CrossFit konur meðal þeirra sex efstu á kvennalistanum.
Katrín Tanja er efst íslenskra kvenna en aðeins tvær konur eru fyrir ofan hana á listanum hjá Friend yfir bestu CrossFit konur frá 2017 til 2023 eða á þeim tíma sem leikarnir hafa endað í Alliant Energy Center. Það eru þær Tia-Clair Toomey og Laura Horvath, sem vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil síðasta haust.
Yfirburðir Toomey eru algjörir en hún vann sex heimsleika í röð frá því að Katrín Tanja vann tvö ár í röð, 2015-16, þar til að Toomey fór í barneignarleyfi. Sú ástralska hefur unnið alla heimsleikana í Madison þar sem hún hefur verið meðal keppenda.
Katrín vann báða sína titla sína í Kaliforníu og það gaf Horvath tækifærið til að komast upp í annað sætið með heimsmeistaratitli sínu á síðustu leikum þar sem Katrín náði sjöunda sætinu.
Besti árangur Katrínar á þessum tíma var annað sætið á Covid-heimsleikunum 2020 sem fóru reyndar fram í Kaliforníu. Hún endaði að meðaltali í sæti 5,2 og vann alls níu keppnisgreinar.
Katrín var sex sinnum á topp tíu og náði að vera meðal þeirra fimm efstu á fimm heimsleikum í röð frá 2017 til 2020.
Anníe Mist er þremur sætum neðar en Katrín og skipar því sjötta sætið. Bestu ár Anníe voru þegar heimsleikarnir fóru fram í Kaliforníu. Hún hefur haldið sér í hópi þeirra bestu í meira en áratug en toppaði með tveimur heimsmeistaratitlum í Kaliforníu.
Besti árangur Anníe á þessum tíma var þriðja sætið bæði 2017 og 2021. Hún endaði að meðaltali í sjöunda sæti og vann eina keppnisgrein.
Anníe er eina konan sem hefur komist á verðlaunapall á öllum þremur tímabilum heimsleikanna, allt frá byrjunarárunum á CrossFit búgarðinum í Aromas, yfir í mun stærri keppni í Carson í Kaliforníu og að endanum í Madison í Wisconsin.
Tvær aðrar íslenskar konur eru á topp þrjátíu listanum. Sara Sigmundsdóttir er í 23. sæti og Þuríður Erla Helgadóttir er í 26. sæti.
Það má sjá umfjöllun Brian Friend hér fyrir neðan.