Í umfjöllun sænska ríkisútvarpsins kemur fram að sænski herinn hafi verið kallaður út til þess að aðstoða farþega bíla á E22 þjóðveginum í suðurhluta Svíþjóðar og færa þeim vatn og matarbirgðir. Farþegar höfðu sumir hverjir setið fastir í rúman sólarhring.
Þá er hið sama uppi á teningnum á Jótlandi í Danmörku þar sem ökumenn hafa setið í umferðarteppum nálægt Árósum síðan í gær vegna veðursins. Haft er eftir lögreglufólki í Svíþjóð og Danmörku að snjóruðningstæki hafi ekki haft undan við að ryðja snjóinn svo miklu magni hafi kyngt niður.
Þá hafa yfirvöld í Svíþjóð sagt að vörubílar sem setið hafi fastir á vegum verði fjarlægðir í síðasta lagi í fyrramálið. Veðuraðstæður séu hægt og bítandi að batna.
Í Finnlandi létust tveir, móðir og barnið hennar, í snjóflóði í Pyhäkuru þjóðgarði í norðurhluta Finnlands. Þau voru þar í skíðagöngu.
Óveðrið í Svíþjóð var gríðarlegt eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.