Vísir greindi frá því í gær að Íslensku hamborgarafabrikkunni í Kringlunni hefði verið lokað. Í haust ákvað sjálfstæður rekstraraðili keðjunnar á Akureyri að endurnýja ekki leigusamning og hætta rekstri. Eftir stendur útibúið á Höfðatorgi.
„Við setjum fókusinn á Höfðatorg. Flaggskipið okkar,“ segir María Rún. Hún segir ákvörðunina að loka í Kringlunni ekki hafa átt sér langan aðdraganda.
„Þetta gerðist með mjög stuttum fyrirvara. En við höfum haft áhyggjur af staðnum síðan í upphafi síðasta árs,“ segir María Rún. Reksturinn hafi verið erfiður og megi rekja til ýmissa þátta.
Hún nefnir afleiðingar Covid-19 faraldursins, nóróveirusýkingu sem kom upp á veitingastaðnum síðasta sumar og þá sé staðsetningin í Kringlunni ekki beint í alfaraleið.
„Höfðatorgið er miklu sterkari eining. Það er betra að fókusa á einn stað.“
Til viðbótar við tvö útibú Íslensku hamborgarafabrikkunnar er Grillhúsið í leit að nýjum eigendum. Veitingahúsarekstur virðist samkvæmt þessu berjast nokkuð í bökkum.
María segir launakostnaðinn stærsta bitann. Þau séu víða yfir fimmtíu prósent rekstrarkostnaðar. Þegar laun hafi verið greidd eigi eftir að kaupa inn vörur, greiða húsaleigu auk ýmiss annars kostnaðar.
„Það eru allir veitingastaðir að berjast við það sama. Að halda launakostnaði í lagi til að reksturinn beri sig. Það er bara svoleiðis.“
María segir starfsmenn hafa fengið uppsagnarbréf en reynt verði að útvega þeim sem vilji vinnu á öðrum veitingastöðum Gleðipinna. Útibúinu á Höfðatorgi en líka Aktu taktu eða American Style.