Í umfjöllun bandaríska slúðurmiðilsins PageSix eru þessi tíðindi sett í beint samhengi við opinberanir um Timberlake í bók Britney Spears. Hún lýsti hegðun hans í hennar garð á meðan þau voru kærustupar árin 1999 til 2002.
Britney sagði meðal annars frá því að hann hefði þrýst á hana að fara í þungunarrof og hætt með henni í gegnum textaskilaboð. Hann hafi auk þess haldið framhjá henni með „mjög þekktri“ konu.
Timberlake þurfti í kjölfarið að slökkva á athugasemdum á Instagram vegna hatursfullra ummæla frá aðdáendum söngkonunnar. Hann hefur lítið látið fyrir sér fara síðan opinberanirnar komu upp í október.
Fram kemur í umfjöllun PageSix að ekki hafi náðst í hann vegna málsins nú. Miðillinn segist þó hafa heimildir fyrir því að söngvarinn muni gefa út nýja tónlist á árinu sem var að ganga í garð. Hann ætli sér auk þess á tónleikaferðalag um Bandaríkin.