Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur sagði fyrir fund að rætt yrði um mörg málefni, til að mynda húsnæðismálin, lagnamálin og fjárhagsstöðu bæjarsjóðs.
„Það verða örugglega mjög skertar útsvarstekjur og við þessar aðstæður er ekki hægt að leggja á fasteignagjöld og þetta eru tveir langstærstu tekjustofnar sveitarfélaga. Það er eitt af því sem við þurfum að ræða og fá stuðning við, að bæjarsjóður fái þetta bætt,“ segir Fannar.
Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.
Það hafi verið þungt högg þegar sprunga opnaðist sunnan varnargarðanna á sunnudag. Þá sé enn verið að vinna að hugmyndum um hvenær hægt verði að búa aftur í bænum.
„Við erum enn að vinna með þær hugmyndir og þær aðgerðir að Grindavík verði byggð upp aftur. Hversu raunhæft er að gera mikil plön í því sambandi núna er annað mál. En við erum ekki að sjá að Grindavík og samfélagið okkar sé úr sögunni heldur ætlum við að gera okkar besta til að flytja heim. En það eru náttúran og örlögin sem stjórna þessu,“ segir Fannar.

Hann segir mjög erfitt að átta sig á ástandinu innan bæjarins.
„Það eru þarna götur og svæði sem ekki verða byggð upp aftur og við breytum því í fallega garða vonandi. En það er mjög erfitt að átta sig á þessu, það varð svo mikil kúvending við þetta eldgos þannig við verðum bara að sjá og anda rólega í bili,“ segir Fannar.