Í september í fyrra var Einar dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir fjársvik, með því að hafa tugi milljóna króna af fólki með blekkingum á árunum 2010 og 2012. Hann hafði þegar greitt fórnarlömbum sínum stóran hlut fjárhæðarinnar sem hann sveik af fólkinu.
Um er að ræða endurupptökudóm. Einar var dæmdur í þriggja ára og níu mánaða fangelsi í Landsrétti árið 2018 en einn dómaranna var meðal þeirra sem Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, var talin hafa skipað ólöglega. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að skipan dómara við Landsrétt árið 2017 hafi strítt gegn mannréttindasáttmála Evrópu.
Gríðarlegur dráttur sé ríkinu að kenna
Einar óskaði eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar í nóvember síðasta árs. Í ákvörðun Hæstaréttar segir að Einar hafi byggt á því að áfrýjun varði mál sem hafi verulega almenna þýðingu og mjög mikilvægt sé að fá úrlausn um.
Ástæða sé til að ætla að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og dómur réttarins bersýnilega rangur um ákvörðun refsingar auk þess sem niðurstaðan gangi gegn skýrri dómvenju í málum sem rekin eru með óhóflegum drætti.
Einar taki fram að meint brot hafi verið framin á árunum 2010 til 2012 og að íslenska ríkið beri fulla ábyrgð á drætti á málsmeðferðinni. Þá telji hann það hafa verulega þýðingu að Hæstiréttur fjalli um sjónarmið sem lúta að hæfi ákæruvalds og sakflytjanda málsins.
Að lokum hafi Einar leitað endurskoðunar Hæstaréttar á sakfellingu eftir ákvæðum þágildandi laga um gjaldeyrismál.
Niðurstaða Hæstaréttar var sú að að gögnum málsins virtum væri hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni Einar. Þá yrði ekki séð að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur.