Ný stjarna að fæðast hjá Liver­pool

Smári Jökull Jónsson skrifar
Conor Bradley og Dominik Szoboszlai fagna marki þess síðarnefnda sem hann skoraði eftir sendingu Bradley
Conor Bradley og Dominik Szoboszlai fagna marki þess síðarnefnda sem hann skoraði eftir sendingu Bradley Vísir/Getty

Liverpool náði aftur fimm stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir góðan 4-1 sigur á Chelsea í kvöld. Hinn tvítugi Conor Bradley skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool í leiknum.

Liverpool hóf leikinn af miklum krafti og Chelsea var í mesta basli með að halda boltanum. Í eina skiptið sem þeir komust nálægt marki Liverpool kölluðu gestirnir eftir vítaspyrnu eftir að Conor Gallagher féll í teignum. Virgil Van Dijk virtist aðeins snerta Gallagher en snertingin var lítil og Paul Tierney dæmdi ekkert.

Skömmu síðar kom fyrsta markið. Það skoraði Diogo Jota þegar hann labbaði í gegnum vörn Chelsea og kláraði vel framhjá Djordje Petrovic í markinu. Varnarleikur Chelsea ekki til útflutnings.

Hinn ungi Conor Bradley hefur slegið í gegn hjá Liverpool í síðustu leikjum en hann hefur spilað í hægri bakvarðastöðunni eftir að Trent Alexander-Arnold meiddist. Hann kom Liverpool í 2-0 á 39. mínútu þegar hann skoraði með góðu skoti eftir sendingu Luis Diaz. Þetta er fyrsta mark Bradley fyrir Liverpool en hann lék fyrsta byrjunarliðsleik sinn í úrvalsdeildinni fyrir tíu dögum síðan.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks fékk Liverpool síðan víti þegar Benoit Badiashile braut klaufalega á Diogo Jota. Darwin Nunez tók vítið en skaut í utanverða stöngina. Þetta var ekki í fyrsta og ekki í síðasta sinn í leiknum sem Nunez skaut í tréverkið.

Staðan í hálfleik var 2-0 en á 65. mínútu skoraði Dominik Szoboszlai gott skallamark eftir sendingu frá ungstirninu Bradley. Christopher Nkunku minnkaði muninn í 3-1 á 71. mínútu skömmu eftir að Liverpool gerði fjórfalda skiptingu og eflaust hefur aðeins farið um knattspyrnustjórann Jurgen Klopp á varamannabekknum þegar hann sá boltann í netinu.

Það hefur þó ekki varað lengi því Luis Diaz gulltryggði sigur Liverpool þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Nunez. Lokatölur 4-1 og Liverpool því aftur komið með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira