Joshua Schulte, 35 ára, hefur setið í fangelsi frá árinu 2018 en árið áður átti hann lykilþátt í svokölluðum „Vault 7“ leka til Wikileaks, sem leiddi í ljós að bandaríska leyniþjónustan hafði stundað það að brjótast inn í Apple og Android snjallsíma á erlendri grundu.
Þá höfðu tilraunir einnig verið gerðar til að stunda njósnir í gegnum nettengd sjónvörp.
Schulte kom að forritun njósnabúnaðarins sem sérfræðingur í höfuðstöðvum CIA í Langley í Virginíu.
Saksóknarar í málinu sögðu um að ræða einn skaðlegasta leka í sögu Bandaríkjanna; hann hefði bæði kostað stjórnvöld milljónir dala, hamlað upplýsingasöfnun gegn andstæðingum Bandaríkjanna og ógnað öryggi starfsmanna CIA.
Lekinn hefði ógnað þjóðaröryggi landsins.
Schulte fékk tækifæri til að tjá sig áður en refsing hans var ákvörðuðu en nýtti tímann aðallega til að kvarta yfir aðstæðum í fangelsinu þar sem hann hefur setið í gæsluvarðahaldi. Þá gangrýndi hann að saksóknarar hefðu farið fram á lífstíðarfangelsi eftir að hafa boðið honum samning upp á tíu ár.
Hann hefði hafnað samkomulagi þar sem það fól í sér að hann afsalaði rétti sínum til að áfrýja.
Schulte sagði yfirvöld ekki á eftir réttlæti, heldur hefnd, en dómarinn sagði það sama um Schulte. Hann sagði uppljóstrarann ekki hafa látið stjórnast af réttsýni heldur reiði gagnvart vinnustað sínum. Þá hefði hann ekki sýnt nein merki um að hann iðraðist gjörða sinna.
Um 2.400 myndir og myndskeið sem sýndu barnaníð fundust á tölvu Schulte, sem hann virðist hafa haft aðgang að úr fangelsinu. Var hann sagður hafa haldið áfram að skoða efnið eftir að hann var handtekinn. Hann var dæmdur í rúmlega sex ára fangelsi fyrir að hafa efnið undir höndum.
Fyrir að stela hinum leynilegum gögnum og leka þeim fékk hann 24 ára dóm.