Guterres tók þessa ákvörðun í samráði við Philippe Lazzarini, yfirmann UNRWA og er rannsókninni ætlað að ganga úr skugga um að stofnunin geri allt til að halda hlutleysi og takast á við alvarlegar ásakanir eins og þessar.
Lazzarini sagði þann 26. janúar að ásakanirnar, sem komu frá yfirvöldum í Ísrael, væru alvarlegar og þær yrðu rannsakaðar. Þá voru tólf starfsmenn reknir.
Sjá einnig: Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna bendlaðir við árásirnar 7. október
Í kjölfarið frystu margir af stærstu bakhjörlum UNRWA fjárveitingar sínar til stofnunarinnar. Ríkisstjórn Íslands gerði það einnig.
Nánast allir af 2,3 milljónum íbúa Gasastrandarinnar og fjölmargir aðrir Palestínumenn sem búa í öðrum ríkjum reiða sig á stofnunina.
Sjá einnig: Nánast allir íbúar Gasa reiða sig á okkur
Samkvæmt yfirlýsingu á vef Sameinuðu þjóðanna mun Catherine Colonna, fyrrverandi utanríkisráðherra Frakklands, leiða hópinn og á vinnan að hefjast þann 14. febrúar. Hópurinn á svo að skila af sér skýrslu í lok mars.
Þessi rannsókn er gerð samhliða annarri af innri endurskoðanda Sameinuðu þjóðanna.