Gestir Pallborðsins verða Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Nína Helgadóttir, teymisstjóri í málefnum flóttafólks hjá Rauða krossinum.
Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í vikunni að það hyllti undir að ráðherranefnd og ríkisstjórnin kæmust til botns í viðræðum um málefni hælisleitenda og gætu myndað sér nýja stefnu í málaflokknum.
Gerði hann því skóna að sú aðgerð að sækja fólk til Gasa sem var veitt dvalarleyfi á Íslandi í desember á grundvelli fjölskyldusameiningar væri háð því að ný stefna lægi fyrir.
„Við getum einfaldlega ekki haldið áfram í einhverri blindni að samþykkja mun fleiri en allir aðrir og sprengt alla innviði. Það er bara staðan sem við stöndum frammi fyrir,“ sagði ráðherrann.
En eru innviðirnir að springa? Og af hverju er flutningur fólksins háður allsherjar stefnumótun?
Við freistum þess að svara þessum spurningum og fleiri í Pallborðinu, sem verður sýnt í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi klukkan 14.