„Ég er svekktur, við ætluðum okkur að ná í tvö stig en það gekk ekki. Mér fannst við vera hálfvankaðar – sérstaklega í fyrri hálfleik, seinni hálfleikurinn allt annar og miklu betri hjá okkur. Einstaka einbeitingarleysi gaf þeim svo auðveldar körfur í fjórða leikhluta“ sagði Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, eftir ósigur sinna kvenna gegn Grindavík.
Haukar byrjuðu aðeins á afturfótunum og voru í eltingarleik við Grindavík allan leikinn. Grindvíkingar leiddu með átta stigum í hálfleik en Haukar unnu sig jafnt og þétt til baka í seinni hálfleik. Þeim tókst svo að jafna metin þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir en vantaði herslumuninn til að sækja sigur.
„Þá vantaði bara eitt, tvö stopp í viðbót. Vorum búin að setja saman nokkur stopp og gera ágætlega sóknarlega en svo fengum við frekar einfaldar körfur á okkur seint á skotklukkunni. Missum aðeins einbeitingu og þær kláruðu það vel bara.“
Haukar höfðu fyrir þennan leik unnið þrjá deildarleiki í röð. Liðið hefur hins vegar átt í erfiðleikum með Suðurnesjaliðin sem verma efstu þrjú sæti deildarinnar. Ingvar sagði liðið ætla að leggja vinnuna á sig til að stilla strengi saman og gera betur í úrslitakeppninni.
„Við erum bara að fókusa á að bæta okkur með hverjum deginum, hverri æfingu og hverjum leik. Seinni hálfleikurinn núna var fínn, fyrri hálfleikur ekki nógu góður en það er búið að vera fínn stígandi og við þurfum að halda því áfram“ sagði Ingvar að lokum.