Körfubolti

Villu­fjöldinn í Stjörnu­leik NBA segir meira en þúsund orð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karl-Anthony Towns naut sín vel í leiknum og var aðeins sá fjórði til að skora fimmtíu stig í Stjörnuleiknum.
Karl-Anthony Towns naut sín vel í leiknum og var aðeins sá fjórði til að skora fimmtíu stig í Stjörnuleiknum. Getty/Stacy Revere

Forráðamenn NBA deildarinnar í körfubolta gerðu enn eina breytinguna á Stjörnuleiknum í ár og töluðu fyrir leik um væntingar sínar til harðari keppni inn á vellinum. Annað kom á daginn.

Leikurinn var aftur keppni á milli Austurdeildarinnar og Vesturdeildarinnar eins og einu sinni en niðurstaðan var meira af því sama og síðustu ár.

Leikmenn skoruðu nánast af vild og nánast enginn lagði það á sig að spila einhverja vörn.

Villufjöldinn í Stjörnuleik NBA í ár segir því meira en þúsund orð. Aðeins voru dæmdar þrjár villur samanlagt í leiknum.

Leikmennirnir sem fengu villu dæmda á sig voru Nikola Jokic, Kawhi Leonard og Trae Young.

Þetta er að sjálfsögðu það minnsta í sögunni og fjórum villum færra en í fyrra.

Fyrir ellefu árum voru villurnar 24 í leiknum og fyrir 31 ári síðan voru villurnar 62 talsins.

Þessar þrjár villur skiluðu leikmönnum fimm vítaskotum. Þeir sem komust á línuna voru Paul George, Giannis Antetokounmpo og Tyrese Maxey.

Það var sett nýtt stigamet í leiknum því alls voru skoruð 397 stig þar af skoraði sigurliðið 211 stig. Leikmenn skutu alls 289 skotum þar 168 fyrir utan þriggja stiga línuna. Stoðsendingarnar urðu 106.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×