Kjaraviðræður breiðfylkingarinnar svokölluðu og Samtaka atvinnulífsins hófust á ný í dag, eftir að hafa legið niðri í um tvær vikur. Fundi þeirra lauk á niðurstöðu á fimmta tímanum í dag en aftur verður fundað á morgun.
Á meðan þær viðræður hafa verið á ís hafa Fagfélögin, sem samanstanda af Rafiðnaðarsambandi Íslands, MATVÍS og Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, fundað með SA. Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandins, fór yfir stöðuna í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Viðræður hafa gengið þannig að við höfum átt nokkra fundi í vikunni, funduðum í gær og á mánudag og síðan eru vinnufundir í gangi. Það er fundur á aftur á morgun. Þetta hefur gengið frekar hægt en samtalið hefur verið í gangi, sem er auðvitað mikilvægt til að koma þessu áfram,“ segir Kristján Þórður.
Mjakast áfram
Kristján Þórður segir að viðræðurnar hafi mjakast áfram en Fagfélögin hefði viljað hafa hraðari gang á þeim.
Á föstudag verði fundað með stórum samninganefndum og staðan verði tekin á þeim tímapunkti.
Setja pressu á Samtök atvinnulífsins
Kristján Þórður segir að Fagfélögin vilji fara að sjá til lands í viðræðunum. „Við vonumst til þess að það verði komið á föstudaginn og ef það gerist ekki þá þurfum við bara að fara að meta þá stöðu sem er í viðræðunum.“
Ef SA kemur ekki með neitt að borðinu á föstudaginn, sjáum við þá fram á aðgerðir?
„Ef málin fara ekki að hreyfast, þá já. Þá er það væntanlega skrefið í kjölfarið. Við auðvitað höldum í vonina að samtalið skili okkur eitthvað áfram. En ef það gerist ekki þá þurfum við að beita meiri þrýstingi.“