Húsnæði nýju þjóðgarðsmiðstöðvarinnar fellur mjög vel inn í landslagið rétt við þorpið á Klaustri og nánast alveg við þjóðveg númer eitt. Í miðstöðinni er sérstakt sýningarsvæði, kennsluaðstaða, auk rýmis fyrir starfsfólk þjóðgarðsins svo ekki sé minnst á veitingasöluna. Heildarkostnaður við bygginguna er um 900 milljónir króna.
Það kom í hlut Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis- orku og loftlagsráðherra að opna Skaftárstofu formlega um síðustu helgi með aðstoð barna á Kirkjubæjarklaustri og tveir fyrrverandi umhverfisráðherrar stóðu þar líka við, eða þau Sigrún Magnúsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
„Það er líka gaman að finna bæði hlýju og stemminguna og framtíðarsýnina hjá heimafólki því að það er nú það fólk, sem hefur borið þetta uppi fram til þessa og mun gera það áfram. Það eru bjartir tímar framundan,” segir Guðlaugur Þór.

Og landið undir þjóðgarðsmiðstöðina var gefið af bónda í sveitinni en landið er metið á 100 milljónir króna í dag.
Hér erum við að tala um Magnús Þorfinnsson í Hæðargarði en með gjöfinni vildi hann styrkja og efla samfélagið sitt og bjóða gesti þess velkomna og fræða þá um náttúru og sögu svæðisins.

„Hér erum við náttúrulega með upplýsingagjöf fyrir þjóðgarðinn svo sem bæði í heild, því þetta er fyrsti staðurinn, sem við komum að, þeir sem eru að koma úr vestri og á leiðinni inn í þjóðgarðinn en líka munum við setja upp sýningu hér fyrir innan sem er í hönnun núna þar sem við erum að leggja áherslu á þetta svæði hér og náttúruna okkar hér og menningu og sögu, sem er allt samtvinnað,” segir Fanney Ásgeirsdóttir, þjóðgarðsvörður hjá Skaftárstofu.

Og börnin klipptu ekki bara á borðann með ráðherra því þau sungu líka við opnun Skafárstofu.
