Notast var við svokallaða Magura V5 sjálfsprengidróna. Það eru fjarstýrðir drónar sem bera mikið magn sprengiefna og eru hannaðir til að vera notaðir saman í árásum. Mörgum þeirra er siglt að sama skotmarkinu á sama tíma og komast þeir þannig í gegnum varnir herskipa.
Úkraínumenn segjast hafa siglt drónunum upp að báðum síðum Sergei Kotov og þar hafi þeir verið sprengdir.
Skipið er af gerðinni Project 22160 og eru þessi skip um 94 metra löng og geta borið stýriflaugar. Þau voru fyrst tekin í notkun árið 2018.
Um sextíu eru í áhöfn þessara skipa en ekki liggja fyrir upplýsingar um afdrif áhafnarinnar.
Undanfarnar vikur hafa Úkraínumenn átt undir högg að sækja á landi. Það sama er ekki upp á teningnum á Svartahafi þar sem þeir hafa notað dróna með góðum árangri. Í síðasta mánuði birtu Úkraínumenn tvö myndbönd sem sýndu sambærilegar árásir á rússnesk herskip, að virðist, með sambærilegum árangri.
Frá því í febrúar 2022 hafa Úkraínumenn grandað fjórum skipum sem hönnuð eru til að flytja hermenn til orrustu, einu beitiskipi, kafbát, birgðaflutningaskipi, nokkrum eftirlitsbátum og minnst tveimur eldflauga-korvettum.
Samkvæmt frétt Forbes samsvarar þetta um fjórðungi Svartahafsflota Rússlands. Ekki er hægt að senda liðsauka til Svartahafs þar sem yfirvöld í Tyrklandi hafa bannað siglingu herskipa um Bosporussund.
Russian military channels confirm that Sergei Kotov was sunk in waters near Feodosiya, occupied Crimea. Russia is not allowed by Turkey to bring new warships to the Black Sea, and each such loss is irreplaceable. pic.twitter.com/yt5oRsKxKF
— Yaroslav Trofimov (@yarotrof) March 5, 2024
Árásirnar eru mikilvægar þar sem stórum hluta þeirra stýri- og eldflauga sem skotið er að Úkraínu er skotið á loft frá herskipum á Svartahafi. Þær hafa einnig gert Rússum ómögulegt að stöðva útflutning Úkraínumanna um Svartahafið.
Árásin mun hafa verið gerð nærri höfninni í Fedosia á Krímskaga.
Yfirvöld í Rússlandi hafa ekki staðfest að árásirnar hafi átt sér stað eða viðurkennt að skipunum hafi verið sökkt. Nærri því ár er síðan Úkraínumenn sökktu Moskvu, flaggskipi Rússa í Svartahafi.