Eins og alkunna er eiga þau Dorrit og eiginmaður hennar Ólafur Ragnar einbýlishús í Mosfellsbænum. Það er skammt frá Varmá og hafa þau verið dugleg að fara í göngutúra í fallegri náttúrunni.
Í myndbandi sem Dorrit birtir á Instagram sést hvernig forsetafrúin gerir sér lítið fyrir og hangir neðan úr tréi þar sem hún snýr bakinu í Varmá. Svo hallar hún sér bara aftur með hárið ofan í ána eins og ekkert sé.
Dorrit hefur haft nóg fyrir stafni á árinu 2024. Í febrúar kíkti hún til að mynda á frumsýningu fimmtu og síðustu seríu af raunveruleikaþáttunum Æði í Bíó Paradís. Þar lék Dorrit á als oddi og sló í gegn eins og henni einni er lagið.
Í upphafi ársins birti Dorrit svo mynd af sér með breska stórleikaranum Michael Caine. Hann er ekki fyrsta frægðarmennið sem Dorrit eyðir kvöldstund með en í september í fyrra sagðist Dorrit hafa hitt kynþokkafyllsta mann heims. Þar var á ferðinni breski grínistinn, rithöfundurinn og leikarinn David Walliams.