Breiðfylking stéttarfélaga skrifaði undir hófsaman tímamótasamning við Samtök atvinnulífsins á fimmtudag eftir tæplega þriggja mánaða viðræður. Fagfélögin fylgdu á hæla stóru félaganna og skrifuðu undir í gær.
Með þessu er búið að semja við stóra hópa og er talið líklegt að aðrir kjarasamningar, sem gera á með vorinu, muni byggja á þessum grunni. Greinandi segir samningana skynsamlega.
„Miklu meiri launahækkanir hefðu einfaldlega komið fram í gengisveikingu, eins og staðan er í dag. Ísland er ekki sérstaklega samkeppnishæft, verðlagið hér í erlendum gjaldmiðlum er mjög hátt svo samkeppnisstaða landsins er ekkert rosalega góð,“ segir Snorri Jakobsson, greinandi og eigandi Jakobsson Capital.
Hann segir aðgerðapakka stjórnvalda, sem meðal annars felur í sér vilyrði fyrir uppbyggingu þúsund íbúða á næstu fjórum árum, vonandi munu snúa við þeirri þróun sem varð á fasteignamarkaði í kjölfar heimsfaraldurs Covid, þegar eftirspurn var mikil en framboð fylgdi ekki.
„Það var vandi fyrir á fasteignamarkaði á Íslandi, það var ekki nægt húsnæði. Til að draga niður kostnað við uppihald hjá almenningi skiptir miklu máli að koma með mikið af fasteignumog kannski halda fasteignaverði niðri,“ segir Snorri.
Samningarnir muni létta undir með mörgum fyrirtækjum en óvíst sé hvort þeir dugi til.
„Hjá öðrum er staðan bara orðin slæm. Gjaldþrotum mun fjölga á næstu tólf til átján mánuðum og uppsögnum.“
Markmiðum samninganna verði líklega náð.
„Ef þú ert að horfa til heildarinnar eru þetta góðir samningar fyrir heildina. Ef þú gerir samninga sem eru góðir fyrir heildina en ekki einstaka hópa, þar sem menn eru að skara eld að sinni köku þá eru mjög miklar líkur á því að vextir muni lækka og verðbólga minnka.“