Hún hefur ákveðið að slíta á tengsl sín við lagið og fer ekki til Svíþjóðar á lokakeppnina verði ákveðið að senda það þangað út. RÚV greinir frá því að niðurstaða keppninnar hafi setið í henni frá því að úrslitin komu í ljós síðustu helgi.
„Ég hef verið mjög skýr í minni afstöðu að það leiki vafi á úrslitunum. Það hafa komið fram réttmætar athugasemdir um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar og mér finnst RÚV ekki hafa gefið skýr svör,“ hefur RÚV eftir henni.
Vildi að Bashar færi út í staðinn
Ásdís hafi viljað að lagið Wild West í flutningi Palestínumannsins Bashars Murad sem laut í lægra haldi í lokaeinvíginu fengi að fara út í lokakeppnina í stað lagsins hennar Scared of Heights í flutningi Heru Bjarkar.
Hún hafi lagt til að niðurstaða fyrri umferðarinnar, þar sem Bashar hlaut langflest atkvæða, yrði látin standa og að í staðinn fengi Hera kannski að fara á næsta ári en þeirri hugmynd hafnaði Ríkisútvarpið.
Ásdís segir jafnframt þá sem komu að Söngvakeppninni hafa fullvissað sig um að hún yrði ekki sett í þá stöðu sem hún finnur sig í núna.
„Ég upplifi mig í ömurlegri stöðu, en samt er ég stolt af Heru og hennar óaðfinnanlegu frammistöðu. Það er fullt af fólki sem lagði allt sitt í að gera atriðið eins gott og raunin var. Ég geri þetta í fullum kærleik og virðingu við Heru og öll hin,“ hefur RÚV eftir henni.
Fá að taka þátt með breyttum texta
Þátttaka Ísraels í Eurovision þykir mörgum skjóta skökku við vegna látlausra átaka á Gasasvæðinu þar sem meira en þrjátíu þúsund Palestínubúar hafa látið lífið. Ísraelar fengu að taka þátt með því skilyrði að texta lagsins sem Ísraelar munu senda í lokakeppnina October Rain í flutningi Eden Golan yrði breytt. Lagið virtist mörgum fjalla um árás Hamas á Ísrael þann sjöunda október síðastliðinn.
Stjórnendum Eurovision er heimilt að útiloka keppendur ef þeir þykja hafa brotið gegn reglum keppninnar gegn pólitískum áróðri.