Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Björn segist hafa fengið fjölmörg atvinnutilboð undanfarin tvö ár en þetta starfstilboð hafi komið á borðið þegar fréttist að senn liði tími hans í starfi forstjóra Karolinska. Hann tók við sem forstjóri spítalans í janúar 2019.
Um fimmtán þúsund manns starfa á spítalanum sem hefur legurými fyrir 2400 manns. Ólíkt því sem þekkist hér á Íslandi er fjármögnun spítalans ekki vandamál að sögn Björns sem ætlar að einblína á að bæta þjónustu og fara betur með fjármagnið.
Spítalinn er staðsettur í höfuðborginni Riyadh. Björn er stjórnarformaður Landspítalans.
Björn segir í viðtali við Dagens Nyheter í Svíþjóð að Sádi-Arabía sé að verða opnara samfélag og markmiðið sé að gera sjúkrahúsið að því besta við Persaflóa. Einræði ríkir í landinu þar sem Al Saud konungsfjölskyldan ræður og ríkir. Refsingar eru harðar, aftökur tíðar og tjáningarfrelsi fótum troðið.
„Það á að huga að mannréttindum. En þarfir sjúklinga eru þær sömu. Þannig að ég held ég geti lagt mitt af mörkum og gert eitthvað gott fyrir kerfið,“ segir Björn.
Fram kemur í umfjöllun DN að Björn hefur reynslu af vinnu í Mið-Austurlöndum. Áður en hann tók við starfi forstjóra Karolinska lenti hann í fjölmiðlastormi eftir umfjöllun sænska útvarpsins Kaliber sem leiddi í ljós að sænskt heilbrigðisfyrirtæki rak kvennasjúkrahús í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Kom í ljós að komið var fram við óléttar ógiftar konur eins og glæpamenn.
Björn tengdist fyrirtækinu sem stjórnarmaður félagsins sem rak sjúkrahúsið. Hann sagðist í fyrstu ekkert kannast við slíkar lýsingar á meðferð á ógiftum óléttum konum. Hann leiðrétti það síðar og bar við að um misskilning hefði verið að ræða.
Björn hefur hlotið lof fyrir fjárhagslegan viðsnúning í rekstri Karolinska. Mikið tap varð þó á rekstri spítalans í fyrra. Hann fær jafnvirði 3,9 milljónir íslenskra króna í laun sem gerir hann launahærri en forsætisráðherra Svía. Enginn kostnaður felst í starfsflokum hans þar sem hann hætti störfum að eigin frumkvæði.