Þessi viljaskortur hefði komið niður á Úkraínumönnum á vígvöllum Úkraínu. Þetta sagði framkvæmdastjórinn þegar hann var að kynna ársskýrslu NATO fyrir síðasta ár.
„Úkraínumenn eru ekki að verða uppiskroppa með hugrekki, þeir eru að verða uppiskroppa með skotfæri,“ sagði Stoltenberg. „Þetta er mikilvæg stund og það yrðu alvarleg mistök að leyfa Pútín [forseta Rússlands] að bera sigur úr býtum. Við getum ekki leyft alræðisherrum að ná fram vilja sínum með valdi.“
Sjá einnig: Úkraínumenn í slæmri stöðu eftir tveggja ára átök
Stoltenberg nefndi þó einnig að nokkur ríki NATO hefðu gert öryggissamstarfssamninga við Úkraínu og að verið væri að senda Úkraínumönnum langdrægar eldflaugar og F-16 orrustuþotur.
Þá sagði framkvæmdastjórinn að fjárútlát til varnarmála hefðu aukist töluvert í Evrópu og í Kanada. Síðasta ár hefði verið níunda árið í röð þar sem þessi fjárútlát eru aukin og aukningin í fyrra samsvaraði um ellefu prósentum.
Stoltenberg sagði útlit fyrir að á þessu ári myndu aðildarríki NATO verja um 470 milljörðum dala í varnarmál, sem samsvaraði um tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu allra ríkjanna. Það yrði í fyrsta sinn sem sá áfangi næðist.
Leiðtogar NATO samþykktu á fundi árið 2014, eftir ólöglega innlimun Rússa á Krímskaga og innrás í austurhluta landsins, að snúa þróun undanfarinna áratuga og að auka fjárútlát til varnarmála. Á fundi í Vilníus í fyrra var svo samþykkt á nýjan leik að ríki NATO myndu ná prósentunum tveimur og að fimmtungur af fjárútlátum til varnarmála ættu að fara í ný hergögn og þróun þeirra.
Fjárútlát til varnarmála í Evrópu hafa aukist verulega frá 2014, eftir margra áratuga niðurskurð.
Sjá einnig: Herir Evrópu standa á brauðfótum eftir áratuga niðurskurð
Í skýrslunni sem Stoltenberg kynnti kemur einnig fram að könnun sem forsvarsmenn bandalagsins létu gera sýni að NATO njóti mikils stuðnings meðal íbúa í aðildarríkjum. Það sama gildir um aðstoð handa Úkraínumönnum, eins og sjá má á myndunum hér að neðan.

