Í kvöldfréttum Stöðvar 2 vísaði Víðir óbeint til orða jarðvísindamannanna og annarra sem höfðu spáð fyrir um lok á gosumbrotum við Grindavík.
„Þó menn hafi verið í ýmsum tölfræðileikjum undanfarið að reyna að spá fyrir um lok þá verða íbúar Grindavíkur að búa sig undir það að þetta standi lengi yfir. Það er það sem ég held að flestir geri sér grein fyrir,“ sagði Víðir.
„Allt kerfið verður bara að vinna með það að við ætlum okkur að Grindavík verður góður og blómlegur bær aftur, en við vitum að það getur tekið tíma.“
Aðspurður út í verkefni dagsins hjá almannavörnum minntist Víðir á að ýmsum öryggismálum hefði verið sinnt, og það gengið vel. Þá sagði hann að eftirlit með gosinu væri einnig ofarlega á baugi.
„Í dag erum við fyrst og fremst búin að vera að fylgjast með því hvernig þetta hegðar sér. Við höfum fyrst og fremst verið að safna upplýsingum og miðla þeim til vísindamanna. Við erum með dróna á svæðinu sem við förum reglulega með yfir gosopin, og myndum þau.“
