Meginvextir Seðlabankans hafa verið fastir í 9,25 prósentum frá því í lok ágúst í fyrra og verðbólga hefur einungis minnkað um eitt prósentustig síðan þá. Nýgerðum kjarasamingum fyrir nær allan almenna vinnumarkaðinn með hófsömum launahækkunum næstu fjögur árin er ætlað að vinna á verðbólgunni og þar með skapa forsendur fyrir lækkun vaxta.
Það hefur því sjálfsagt valdið mörgum vonbrigðum að Seðlabankinn skyldi ekki lækka meginvexti sína í dag og ákveðið að halda þeim óbreyttum í 9,25 prósentum.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að verðbólga hafi lækkað lítillega í febrúar, hins vegar væri undirliggjandi verðbólga enn yfir markmiði eins og verðbólguvæntingarnar, sem gæti bent til að verðbólga verði enn þrálát. Einnig gætu aðgerðir í ríkisfjármálum aukið eftirspurn og verðbólguþrýsting.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir fleira þurfa að koma til en hófsama kjarasamninga á almenna markaðnum. Enn eigi eftir að semja við tugþúsundir opinberra starfsmanna og ríkisstjórnin eigi eftir að birta fjármálaáætlun sína. Þá þurfi fyrirtækin að axla sína ábyrgð.
Eru vísbendingar um að atvinnulífið ætli að setja þessar launahækkanir beint út í verðlagið?
„Ég veit það ekki en það var alla vega það sem gerðist síðast,” áréttar Ásgeir. Seðlabankinn hafi það verkefni að ná verðbólgunni niður sem væri alger forsenda þess að lækka vexti. Vonandi sjáist merki þess á næstu vikum og mánuðum.
„Við álítum að við séum að styðja við þessa samninga með því að ná verðstöðugleika. Tryggja að við getum þá lækkað vexti vel og mynduglega þegar rétti tíminn kemur,“ segir seðlabankastjóri.

Gríðarlegur hagvöxtur hefur verið á undanförnum þremur árum. Íslendingar ná engan veginn að anna eftirspurn eftir vinnuafli og hingað koma tugir þúsunda til að vinna. Þetta þrýstir á húsnæðismarkaðinn og raunar alla innviði landsins eins og heilbrigðiskerfi og menntakerfi.
„Það er margt jákvætt að gerast í þessu landi. Þrátt fyrir allt erum við frumkvöðlaþjóð. Það eru greinar sem hafa vaxið mjög hratt eins og til dæmis ferðaþjónustan. Við höfum líka verið að taka við mjög miklu erlendu vinnuafli. En það er bara mjög erfitt að ætla að vaxa svona hratt,” segir Ásgeir.
Þjóðina standi því frammi fyrir miklum áskorunum.
„Við erum á réttri leið. Þetta er að takast hjá okkur. Við erum að ná verðbólgu niður. Mér finnst hugsunin í kjarasamningunum mjög góð. Mér finnst aðilar vinnumarkaðarins vera að hugsa um rétta hluti. Þetta er langtíma samningur. Það skiptir okkur máli að þetta gangi eftir eins og markmiðin eru og ég trúi því að við séum að ná utanum vandann sem þjóð,” segir Ásgeir Jónsson.