Það eru 49 ár síðan Þór komst síðast í bikarúrslit og var Lore spurð að því hvernig tilfinningin væri.
„Tilfinningin er frábær. Við vorum svo spenntar nú þegar að vera í undanúrslitunum og spila í Laugardalshöllinni. Þetta skipti stelpurnar í liðinu og stuðningsmennina svo miklu máli. Þetta er dásamlegt. Þetta er mjög spennandi.“
Þjálfari Grindavíkur talaði um í viðtali að orkustigið hjá Grindvíkingum hafi ekki verið gott hjá sínum stelpum. Hvernig var hugarfarið hjá Þór komandi inn í leikinn?
„Við ætluðum bara að vera orkumeiri en þær og við náðum að gera það í 40 mínútur. Þó það hafi komið smá kafli þar sem orkan datt niður þá náðum við að halda dampi og klára leikinn. Við gáfum tóninn.“
Annar leikhluti var rosalegur hjá Þórsurum og komust þær t.d. á 17-0 sprett sem opnaði 11 stiga forskot sem hélst að miklu leyti allan leikinn. Hvað fór í gegnum huga leikmanna á þeim tíma?
„Við vorum bara að fagna öllu og vorum mjög ánægðar og spenntar yfir því sem var að gerast. Við vorum samt með það í huga að Grindavík er mjög hæfileikaríkt lið og að leikurinn er 40 mínútur og við þurftum að vera klárar í að hleypa þeim ekki inn í leikinn.“
Á laugardaginn er það svo Keflvíkingar sem bíða Þórsara í bikarúrslitaleiknum sjálfum. Þór hefur unnið Keflavík einu sinni í vetur og þegar blaðamaður var að klára spurninguna þá greip Lore orðið af honum.
„Þannig að við vitum að það er möguleiki! Það verður erfitt en maður veit aldrei. Það þarf alltaf að spila allan leikinn þannig. Þetta verður slagur en vonandi nær betra liðið bara að vinna.“
Þórsarar fengu framlag úr mörgum áttum í kvöld en sérstaklega var tekið eftir framlagi Emmu Karólínu Snæbjarnardóttur sem er 15 ára gömul en hún skoraði 8 stig í fjórða leikhluta og 12 stig í heild. Lore var beðin um að lýsa áhrifunum sem hún hafði á leikinn.
„Frábær! Hún gefur okkur svo mikla orku. Hún hefur verið að kljást við erfið meiðsli en er að koma til baka núna og verið frábær. Vonandi nær hún að vaxa og verða leiðtogi fyrir þetta lið.“
Á milli leikja þarf að hugsa vel um sig.
„Við þurfum að njóta í dag svo þurfum við að gera huga okkar og líkama kláran og undirbúa okkur fyrir leikinn á laugardaginn.“