Þetta segir í tilkynningu frá Póstinum. Þar segir að fimm samstarfspósthúsum Póstsins og jafn mörgum pósthúsum í eigin rekstri verði lokað í byrjun júní.
Pósthúsin sem um ræðir eru á Hvammstanga, Siglufirði, Dalvík, Ólafsfirði, Búðardal, Grundarfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Breiðdalsvík og Neskaupstað.
Á flestum þessara staða er þegar komið upp póstbox en í Búðardal, Ólafsfirði, á Breiðdalsvík og Siglufirði verða sett upp póstbox í næsta mánuði.

Póstbox og póstbíll á ferðinni
„Dregið hefur úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa. Þar af leiðandi er lagt upp úr að þróa annars konar lausnir,“ segir Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa. Nú sé einnig hægt að póstleggja sendingar í póstboxin sem eru opin allan sólarhringinn.
Póstbíllinn verði líka á ferðinni á þessum stöðum og boðið upp á heimsendingarþjónustu á Hvammstanga, Dalvík, Breiðdalsvík og í Ólafsfirði. Sú þjónusta hafi fyrir breytingarnar ekki verið í boði.
„Breytingarnar hafa áhrif á sex stöðugildi. Nokkrum starfsmönnum var boðið annars konar starf eða flutningur. Ég vil þakka því góða starfsfólki sem nú lætur af störfum og óska því góðs gengis í næstu verkefnum,“ segir Kjartan.