Körfubolti

Ný­liðinn Wemby með 40-20 leik í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það voru gerðar miklar væntingar til Victor Wembanyama fyrir hans fyrsta tímabil í NBA en hann hefur staðið undir þeim.
Það voru gerðar miklar væntingar til Victor Wembanyama fyrir hans fyrsta tímabil í NBA en hann hefur staðið undir þeim. AP/Eric Gay

Það dugði ekki New York Knicks liðinu í nótt að bakvörðurinn Jalen Brunson skoraði 61 stig á móti San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfubolta.

Heimmenn höfðu betur, 130-126 og þar munaði mest um frammistöðu nýliðans magnaða Victor Wembanyama. Leikurinn endaði í framlengingu eftir magnaða endurkomu.

Wembanyama endaði leikinn með 40 stig, 20 fráköst og 7 stoðsendingar.

Þetta er aðeins í annað skiptið í sögunni þar sem leikmaður í öðru liðinu skorar sextíu stig og leikmaður í hinu liðinu er með 40-20 leik.

Það gerðist í fyrsta skiptið og síðast árið 1961. Þá var Elgin Baylor með 63 stig og Wilt Chamberlain skoraði 78 stig og tók 43 fráköst.

Brunson skoraði 38 af 61 stigi sínum í seinni hálfleiknum sem er metjöfnun við Patrick Ewing yfir það mesta sem Knicks leikmaður hefur skorað í hálfleik.

Brunson hjálpaði Knicks að vinna upp 21 stigs forskot og koma sér aftur inn í leikinn. Brunson tók 47 skot og hitti úr 25 þeirra. Þetta eru flest skot tekin í einum leik síðan Kobe Bryant lék sinn síðasta leik árið 2016.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×