Körfubolti

Stóðu og klöppuðu fyrir James eftir af­rek sem að­eins Jordan hafði náð

Sindri Sverrisson skrifar
LeBron James var vel fagnað í New York í gær og þakkaði fyrir sig.
LeBron James var vel fagnað í New York í gær og þakkaði fyrir sig. AP Photo/John Munson

LeBron James setti niður níu þriggja stiga skot fyrir Los Angeles Lakers og var hylltur af heimafólki í New York í gærkvöld, eftir 116-104 sigur Lakers á Brooklyn Nets í NBA-deildinni.

James skoraði alls 40 stig í leiknum og er aðeins annar körfuboltamaðurinn í sögunni til að skora 40 stig í meira en einum NBA-leik, eftir að hafa orðið 39 ára. Hinn er Michael Jordan sem lék til fertugs og náði þremur 40 stiga leikjum eftir að hafa náð 39 ára aldri.

„Í hvert skipti sem maður er tengdur við þá allra bestu þá er það býsna svalt,“ sagði James eftir sigurinn í nótt.

Eftir sigurinn eru Lakers í 9. sæti vesturdeildarinnar og á leið í umspil um sæti í úrslitakeppninni, þegar liðið á sjö leiki eftir, en Nets eru í 11. sæti austurdeildarinnar.

D‘Angelo Russell skoraði 18 stig fyrir Lakers og rauf þar með 10.000 stiga múrinn á sínum ferli.

Úrslitakeppnin liti svona út ef deildakeppninni væri lokið, en enn eru tvær vikur eftir.NBA.com

Af öðrum úrslitum má nefna að Oklahoma City Thunder tryggði sér sæti í úrslitakeppninni í fyrsta sinn síðan árið 2020, með því að vinna New York Knicks 113-112. Shai Gilgeous-Alexander skoraði sigurkörfuna þegar 2,6 sekúndurd voru eftir.

Meistarar Denver Nuggets tryggðu sig einnig endanlega inn í úrslitakeppnina með því að vinna Cleveland Cavaliers, 130-101. Nikola Jokic náði þrennu í 23. sinn á tímabilinu en hann skoraði 26 stig, tók 18 fráköst og gaf 16 stoðsendingar.

Dallas Mavericks hafa svo unnið sjö leiki í röð en Luka Doncic skoraði 47 stig fyrir þá í gærkvöld, í 125-107 sigri á Houston Rockets, sem höfðu unnið 11 leiki í röð. Doncic tók 12 fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×