Lögin sem samþykkt hafi verið í flýti eftir miklar breytingar í meðför atvinnuveganefndar veiti stjórnendum ýmissa stórfyrirtækja heimild til að viðhafa ýmsa háttsemi sem í öðrum atvinnugreinum sé almennt ólögmæt og refsiverð. Meðal annars séu felld niður ákvæði í upphaflegu frumvarpi um að Samkeppniseftirlitið geti mælt fyrir um að einstakir samningar eða ákvarðanir framleiðendafélaga séu óheimilar.
„Kjötafurðastöðvum verður heimilt að sameinast án takmarkana, sem var ekki lagt til í upphaflegu frumvarpi. Samkeppniseftirlitið hefur bent á að engin dæmi séu um undanþágu af þessu tagi í nágrannalöndunum,“ segir í tilkynningu samtakanna.
Katrín hefur undanfarnar vikur verið starfandi matvælaráðherra í fjarveru Svandísar Svavarsdóttur sem boðar þó endurkomu í matvælaráðuneytið á morgun. Í erindi sínu til Katrínar reka formenn fyrrnefndra hagsmunasamtaka málið.
Samtökin þrjú benda á að Katrín hafi eftir samþykkt frumvarpsins svarað fjölmiðlum á þann veg að skoða þurfi hvort nýju lögin brjóti í bága við EES-samninginn.
„Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna frá 24. febrúar 2023 skal í greinargerð með frumvarpi fjalla um samræmi þess við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar enda gefi frumvarpið tilefni til slíks mats. Ekki er gert ráð fyrir að ráðuneytin framkvæmi slíkt mat eftir á, þegar frumvörp eru orðin að lögum. Að mati samtakanna hefði verið fyllsta ástæða til þess að matvælaráðuneytið framkvæmdi nýtt mat á samræmi frumvarpsins við EES-samninginn eftir breytingar við 2. umræðu, áður en það var keyrt í gegnum Alþingi og varð að lögum,“ segja samtökin.
Þá gera þau athugasemdir við að málið hafi í raun ekki fengið þrjár umræður á Alþingi eins og kveðið er á um í stjórnarskrá. Málin hafi verið gjörbreytt við 2. umræðu.
„Það þingmál sem var samþykkt var allt annað en það sem umsagnaraðilar höfðu tekið afstöðu til í samráðsferli og í umsögnum til Alþingis og allt annað en það sem þingmenn ræddu við 1. umræðu. Ekki verður því séð að lögin hafi verið sett með stjórnskipulega réttum hætti.“
Fyrir vikið beri Katrín augljós skylda til að aðhafast tafarlaust að eigin frumkvæði til að tryggja þrennt:
- Að lagasetningin sé í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
- Að mat á áhrifum lagasetningarinnar sé í samræmi við reglur ríkisstjórnarinnar sjálfrar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna.
- Að meðferð Alþingis á málinu sé í samræmi við stjórnarskrána.
„Beinast liggur við að ráðherra beiti sér fyrir því að lög nr. 1322/2024 verði felld úr gildi. Athafnaleysi ráðherra í þessu máli er líklegt til að skaða hagsmuni neytenda, launþega og verslunar í landinu,“ segja samtökin og óska svara hið fyrsta um það til hvaða ráðstafana ráðherra hyggst grípa.