Fjallað var um jarðgangamál í fréttum Stöðvar 2 en bæjarstjórinn á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, vill göng milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar. Þar eru ellefu kílómetra löng göng undir Öxnadalsheiði í tíunda sæti á forgangslista jarðgangaáætlunar sem þýðir að þau eru ekki á dagskrá fyrr en í kringum árið 2050. En bæjarstjórinn nefndi einnig þann möguleika að fara í styttri göng, 3,7 kílómetra löng, svokölluð Bakkaselsgöng.
![](https://www.visir.is/i/02FBBEB82C85727E6F1F158CCC516DAAE9FCF69D6721DA577BCCE180D8B43439_713x0.jpg)
Skagfirðingar hafa haldið fram þeim kosti að grafa 22 kílómetra göng undir Tröllaskaga milli Hjaltadals og Hörgárdals, en Vegagerðin hefur nánast slegið þau út af borðinu vegna mikils kostnaðar.
Þeir sem sátu fastir á Akureyri um helgina gátu með herkjum komist um Ólafsfjörð og Siglufjörð. Ný 5,2 kílómetra göng milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði auðvelda mönnum að komast þá leið. Siglufjarðarskarðsgöng eru í öðru sæti á jarðgangaáætlun, sem miðar við að framkvæmdir við þau hefjist eftir fjögur ár og ljúki árið 2031.
![](https://www.visir.is/i/5F31E36629F14C2188B0D6959D116C0190F04DB269C930F9BCC7A92009AAA94B_713x0.jpg)
Á eftir nýjum Hvalfjarðargöngum, sem eru í þriðja sæti með áætlaða opnun árið 2034, eru Ólafsfjarðargöng í fjórða sæti forgangslistans, annaðhvort ný 8,8 kílómetra göng milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar eða hreinlega breikkun núverandi Múlaganga. Upphaf framkvæmda er áætlað árið 2033 og verklok árið 2037.
En ferðamenn urðu einnig innlyksa á Ísafirði um helgina. Þar setja heimamenn á oddinn göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur vegna snjóflóðahættu, 6,7 kílómetra göng. Einnig eru styttri göng, 2,3 kílómetra löng um Súðavíkurhlíð, í myndinni. Súðavíkurgöng eru í fimmta sæti forgangslistans og minnst tólf ár í framkvæmdir með verklok áætluð árið 2039.
Ennþá aftar á listanum, eftir 20 ár eða svo, eru göng milli Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Bíldudals, undir Mikladal og Hálfdán. Göng undir Klettsháls, sem er oft farartálmi, eru tímasett á árabilinu 2046 til 2049.
![](https://www.visir.is/i/AEBAC26066709D11577ABAF06E2B64803C3E4E0670BD81D4A1043B111A7EE38C_713x0.jpg)
Það eru hins vegar 13,3 kílómetra löng Fjarðarheiðargöng, sem tengja Egilsstaði og Seyðisfjörð, sem núna eru efst á forgangslista stjórnvalda, með verklok árið 2031, miðað við að framkvæmdir hefjist á næsta ári. Seyðfirðingar notuðu tækifærið um helgina og minntu á að þeir hefðu verið innilokaðir í fjóra daga. Það nefndi þó enginn að Mjófirðingar hafa ekki komist akandi úr sínum firði síðustu fjóra mánuði og þurft að treysta á bátsferðir til Norðfjarðar til að kaupa í matinn.
Tvenn göng um Mjóafjörð, sem tengja Seyðisfjörð og Norðfjörð, eru á dagskrá árið 2039 með verklok árið 2043. Heitar umræður eru núna á Austfjörðum um að víxla þessari forgangsröð og taka Mjóafjarðatenginguna, eða Fjarðaleið, á undan. Það er ódýrasta leiðin til að tengja Seyðisfjörð með láglendisvegi við hringveginn. Með þeim fengju Seyðfirðingar jafnframt góða tengingu við stærsta atvinnusvæði Austfjarða í Fjarðabyggð.
Loks má nefna göng undir Hellisheiði eystri, milli Vopnafjarðar og Héraðs, en þau náðu ekki í fyrra inn á topp tíu lista stjórnvalda, sem nær fram til ársins 2053. Þó urðu íbúar norðausturhornsins einnig innlyksa vegna ófærðar núna um páskana þegar bæði Möðrudalsöræfi og Hófaskarð lokuðust.
![](https://www.visir.is/i/B9C3ED6F00B104F8A1A78872C22AE7A60C8E8081E88387938FE3AC2D8DE6C18C_713x0.jpg)
Fjögur ár eru brátt liðin frá því síðast var unnið að jarðagangagerð hérlendis en Dýrafjarðargöng voru opnuð haustið 2020. Þegar spurt er hversvegna jarðgangastoppið sé orðið svona langt er stutta svarið: Peningaskortur. Ríkisstjórninni hefur hreinlega ekki tekist að útfæra leiðir til að fjármagna jarðgangaáætlun.
Menn höfðu vonast til að sjá einhverjar tillögur í þeim efnum lagðar fyrir yfirstandandi þing en núna heyrist innan úr kerfinu að það frestist. Miðað við þessa óvissu og stöðu ríkisfjármála kæmi ekki á að óvart að landsmenn gætu þurft að bíða í eitt til tvö ár enn, jafnvel lengur, eftir næstu jarðgangasprengingum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Fjallað var um jarðgangadeilurnar á Austfjörðum í þættinum Ísland í dag í fyrra: